Dekurdagar handan hornsins Vantar sjálfboðaliða til að aðstoða

Fyrstu slaufur haustsins klárar    Myndir á facebook síðu Dekurdaga
Fyrstu slaufur haustsins klárar Myndir á facebook síðu Dekurdaga

Dekurdagar verða í ár haldnir dagana 9 til 12. október. Vilborg Jóhannsdóttir kaupmaður í Centro byrjaði að hnýta bleiku slaufurnar í byrjun mánaðar, þannig að slaufurnar verði klárar þegar Dekurdagar hefjast.

Marta Kristín Rósudóttir verkefnastjóri dagskrár og viðburða hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis segir að nú standi yfir leit að fleiri sjálfboðaliðum til að aðstoða við að koma slaufunum á sýna staði. „Í ár leggjum við áherslu á að fólk og fyrirtæki sem sæki slaufurnar sínar til Vilborgar í Centro, en þeir sem ekki treysta sér til þess munu fá þær sendar og eins munum við sjá um að hengja þær upp,“ segir Marta Kristín. Ástæða þessa breytta fyrirkomulags er að mikil aukning hefur orðið í sölu á slaufur á ljósastaura, „sem er alveg frábært,“ segir hún, en til að létta álagið er fólk beðið um að sækja slaufurnar.

Marta Kristín segir að óskað sé eftir sjálfboðaliðum, m.a. fyrirtækjaeigendum sem vilja leggja fram aðstoð við skipulagningu og eins hópum sem vilja aðstoða við að hengja slaufur upp.

Á liðnu ári söfnuðust 6,7 milljónir króna með sölu á bleikum slaufum og rann ágóðinn til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. „Það væri auðvitað mjög gaman ef við næðum að toppa þá upphæð nú í haust,“ segir Marta Kristín. Alls hefur frá upphafi verið safnað tæpum 38 milljónum króna með sölu á bleikum slaufum sem runnið hafa til KAON.

Ýmislegt verður um að vera í tengslum við Dekurdaga, fjölbreyttir viðburðir hér og hvar um bæinn sem kynntir verða þegar nær dregur.

 

Bleiku slaufurnar setja svip sinn á bæjarbraginn á Akureyri á haustin

Nýjast