Málefnasamningur Framsóknarflokks, L-listans og Samfylkingarinnar sem mynda meirihluta á næsta kjörtímabili á Akureyri verður kynntur á allra næstu dögum. Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar verður þriðjudaginn 12. júní.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins, segir í samtali við Vikudag að vinna við málefnasamningin gangi vel. „Það eru engin stór ágreiningsmál,“ segir Guðmundur Baldvin. Dagvistunarmálin voru mikið til umfjöllunar fyrir kosningar og lögðu allir flokkar áherslu á að bæta þau mál í sinni stefnuskrá. Spurður hvort dagvistunarmálin verði í forgangi í nýjum málefnasamning segir Guðmundur Baldvin:
„Ég ætla ekki að tjá mig nákvæmlega um innihald málefnasamningsins, en miðað við áherslumál flokkana fyrir kosningar gefur augaleið að þau mál verði ofarlega á baugi.“
Guðmundur Baldvin var formaður bæjarráðs á síðasta kjörtímabili. Spurður hvort hann muni gegna því embætti áfram vill hann ekki svara því. „Verkaskiptingin í bæjarstjórn liggur fyrir og hún verður kynnt þegar málefnasamningurinn verður lagður fram,“ segir Guðmundur.
Nýr meirihluti ætlar að ráða bæjarstjóra en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort staðan verði auglýst. „Við erum að velta fyrir okkur þeim möguleikum sem eru í stöðinni.“