Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur um allt land

Eiríkur Björn bæjarstjóri með veggspjaldið sem starfsfólk og leikskólabörn á Pálmholti færðum honum.
Eiríkur Björn bæjarstjóri með veggspjaldið sem starfsfólk og leikskólabörn á Pálmholti færðum honum.

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í dag, mánudaginn  6. febrúar. Þetta er  merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þennan dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja fólk til umhugsunar um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við. Dagur leikskólans er nú haldinn í fimmta sinn. Í tilefni dagsins hefur m.a. verið auglýst eftir gullkornum frá leikskólum landsins. Þau þurftu að vera lýsandi fyrir það nám sem leikskólabörn stunda og óskað var eftir mynd með. "Bestu" gullkornin hafa verið valin á veggspjald og er þeim dreift til leikskóla og sveitafélaga.

Auk þess var óskað eftir myndböndum með stuttum viðtölum við leikskólabörn um leikskólalífið. Dæmi um spurningar sem þau svöruðu: Hvað lærir þú í leikskólanum? Hvað gera leikskólakennarar og hvernig eiga góðir leikskólakennarar að vera? Myndböndin verða notuð við ýmis tækifæri og reynt að koma efni þeirra á framfæri í fjölmiðlum. Leikskólar hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti. Leikskólar á Akureyri og nágrenni taka þátt í deginum með ýmsum hætti. Leikskólabörn á Pálmholti hengdu upp listaverk sín í strætó í tilefni af degi leikskólans. Einnig heimsóttu leikskólakennarar og börn á Pálmholti, Eirík Björn Björgvinsson bæjarstjóra, í morgum og afhentu honum veggspjald með gullkornum. Bæjarstjóri spjallaði við gestina og söng svo með þeim lagið; Krummar krunkar úti.

Naustatjörn á Akureyri skreytti gluggana í Bónus í Naustahverfi – en það verkefni tengist bæði Degi leikskólans og 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. Holtakoti á Akureyri er með sýningu í bakarínu við Langholt. Listaverkasýningin er unnin úr heimilissorpi og fleiru en þessi efniviður var valinn af því að Akureyrarbær er framarlega í flokkunnarmálum. Álfasteinn í Hörgársveit verður með opið hús alla vikuna frá kl. 9 til 11 og 14 til 16. Lundarsel á Akureyri er  með opið hús í dag frá  kl. 9 til 11 og 13 til 15 - þar þar sem afmæliskort til Akureyrar verða til sýnis fyrir gesti og gangandi, sömuleiðs verður myndband úr daglega starfi yngstu barnanna til sýnis. Iðavellir á Akureyri á samvinnu við foreldrafélagið að standa fyrir fjölskyldufjöri milli kl. 15:30 og 17:30. Börnin og starfsfólk leikskólans bjóða foreldrum/forráðamönnum í leikskólann og kynna hvað þau hafa verið að gera í vetur. Kiðagil á Akureyri er með myndlistasýninginu á Flugsafninu, Sunnuból er með opið hús milli klukkan 9.00-11.00 og 13.00-15.00 - Kynnt verður þemavinna um Hrafninn sem unnin hefur verið undanfarnar vikur. Þá er leikskólinn Flúðir á Akureyri með sýningu í Hrísalundi.

Nýjast