Byggja upp rannsóknaraðstöðu í Grunnskóla Raufarhafnar

Rayfarhöfn. Mynd/Norðurþing.
Rayfarhöfn. Mynd/Norðurþing.

Fræðslunefnd Norðurþings samþykkti á fundi sínum í vikunni uppbyggingu rannsóknaraðstöðu Rannsóknarstöðvarinnar Rifs um uppbyggingu í Grunnskóla Raufarhafnar.

Í innsendri greinargerð Rannsóknarstöðvarinnar er verkefninu lýst, grein gerð fyrir notkunarmöguleikum fyrirhugaðrar aðstöðu, framkvæmdum vegna uppsetningar hennar lýst og fjármögnun verkefnisins og framkvæmda vegna þess útlistuð.

Þar kemur fram að Rannsóknarstöðin Rif muni alfarið standa straum af kostnaði vegna uppsetningar aðstöðunnar auk annars tilfallandi kostnaðar vegna hennar. Um samstarfsverkefni Rannsóknarstöðvarinnar og Grunnskóla Raufarhafnar er að ræða þar sem Rannsóknarstöðin leggur til fjármagn og mannskap til uppbyggingar aðstöðunnar en Grunnskólinn leggur til húsnæði.

Markmið samstarfsins er m.a. að auka gæði og fjölbreytni í kennslu umhverfisfræði, náttúruvísinda og raungreina. Þá hyggst Rannsóknarstöðin nýta aðstöðuna til að sinna vöktun og rannsóknum á lífríki Norð-austulands. Þetta kemur fram í bókun fræðslunefndar.

Nýjast