Gert er ráð fyrir byggingu allt að 15 félagslegra íbúða á Akureyri næstu þrjú árin eða til ársins 2020. Líkt og undanfarin ár er aðaláherslan lögð á úrræði fyrir fatlaða og fólk með sérþarfir. Þá samþykkti bæjarráð í nóvember síðastliðnum stofnstyrki til Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, vegna kaupa á fimm íbúðum á árinu 2017, en alls gerir félagið ráð fyrir að kaupa eða byggja tíu íbúðir á næstu tveimur árum.
Þetta kemur fram í grein sem þrír bæjarfulltrúar meirihlutans á Akureyri skrifuðu í síðasta tölublaði Vikudags. Töluverð umræða hefur skapast um félagslegar íbúðir á Akureyri undanfarið. Rúv sagði frá því nýlega að heimilislaus kona byggi í húsbíl þar sem hún ætti í engin hús að venda og biði eftir að komast í félagslega íbúð.
Í dag er Akureyrarbær með um 330 íbúðir í rekstri í félagslega íbúðakerfinu og hafa 12 íbúðir bæst við kerfið á síðustu tveimur árum.