Skíðatíðin hefur gengið ágætlega það sem af er, segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli, en skíðasvæðið var opnað 3. desember síðstaliðinn. Hlákan undanfarið hefur orðið þess valdandi að af og til hefur orðið að loka, en Guðmundur Karl er engu að síður bjartsýnn á að komandi mánuðir verði góðir. Hann segir að mikill fjöldi fólks hafi lagt leið sína í Hlíðarfjall þá daga sem opið hefur verið, margt var um manninn um jól og áramót, þannig að þetta byrjaði bara mjög vel hjá okkur, segir Guðmundur Karl.
Hann segir að alltaf megi búast við hláku, umhleypingar séu hluti af því að búa á Íslandi og það viti menn og kippi sér ekki mikið upp við það. Enn er nægur snjór á helstu skíðaleiðum, en vissulega ekki mikill, að sögn forstöðumanns. Guðmundur Karl segir að búast megi við straumi skíðafólks í Hlíðarfjall á næstu vikum og mánuðum, en m.a. eru framundan vetrarfrí í skólum landsins og margir nýti þau til skíðaferða. Vetrarfríin eru í grunnskólum á suðvesturhorni landsins nú í febrúar og vitað er að margir munu vera á ferðinni í Hlíðarfjalli af því tilefni. Guðmundur Karl segir að þó svo að skíðasvæði, t.d. í Bláfjöllum, séu opin hafi það ekki mikil áhrif í Hlíðarfjalli, fólk komi engu að síður enda margir búnir að skipuleggja ferðina með nokkrum fyrirvara.
Þá eru væntanlegir tveir hópar frá Færeyjum í skíðaferð til Akureyrar og koma þeir seinni partinn í mars. Fylla þeir tvær flugvélar, 98 manns í hvorri og munu Færeyingar dvelja við skíðaiðkun yfir langa helgi. Bæjarbúar nýta svo vélarnar til að ferðast með vélunum til baka til Færeyja.
Nú á sunnudag verður efnt til alþjóðlegs skíðadags með heitinu; Snjór um víða veröld, sem að standa Alþjóðaskíðasambandið, Skíðasamband Íslands og skíðasvæðin á landinu og er fólki boðið að koma á skíði á svæðunum, fá kennslu, þiggja kakósopa og loks verður lukkupottur fyrir börn yngri en 12 ára.