Stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar samþykkti ályktun um samgöngumál á fundi sínum í morgun. Þar segir að mjög brýnt sé að lækka flutningskostnað fyrirtækja á landsbyggðinni, einkum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Slík aðgerð er brýn til að jafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækja úti á landsbyggðinni og í Reykjavík og fátt sé betur til þess fallið að ná þessu markmiði en að stytta leiðir.
Ályktun stjórnar AFE frá í morgun er annars svohljóðandi í heild sinni:
Ályktun stjórnar AFE um samgöngumál 15. Júní 2009
Í ljósi atvinnuþróunar á landsbyggðinni er brýnt er að lækka flutningskostnað fyrirtækja sem þar starfa, ekki síst til og
frá höfuðborgarsvæðinu og jafna með því samkeppnisstöðu þeirra. Ekkert er betur til þess fallið en að stytta
leiðir. Sú leið sem helst hefur verið nefnd að undanförnu er stytting Hringvegar um 13 km með nýjum vegi, Svínavatnsleið, í
Austur-Húnavatnssýslu. Með þeirri framkvæmd og um 6 km styttingu í Skagafirði mætti samtals ná um 20 km styttingu Hringvegarins.
Í viðamikilli skoðanakönnun IMG Gallup frá maí 2006 kemur fram mikill stuðningur við gerð Svínavatnsleiðar í stað óbreyttrar
legu Hringvegarins eða 66% á landsvísu og 75% á Norðurlandi. Þessi stytting yrði afar mikilvæg fyrir fyrirtæki á Norðausturlandi og
því brýnt að hefja undirbúning að gerð vegar þessa leið sem fyrst.
Þá hvetur AFE til að könnuð verði hagkvæmni strandsiglinga og sjóflutninga til fleiri hafna en nú er. Þá telur AFE einsýnt
að með hagkvæmu skipulagi áfangastaða strandsiglinga mætti auka hagkvæmni í flutningum og létta álaginu af vegakerfinu um leið.
Öllum er ljóst mikilvægi þess að mannaflsfrekum framkvæmdum sem nú standa yfir við Héðinsfjarðagöng og fyrirhuguðum
framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng sé flýtt sem kostur er í ljósi núverandi atvinnu- og efnahagsástands.
Nú þegar sér fyrir endann á lengingu flugbrautarinnar á Akureyri er mikilvægt að að stækka flugstöðina þannig að
hún geti tekið við auknu millilandaflugi og að Akureyrarflugvöllur verði skilgreindur sem annar millilandaflugvöllur Íslands með áherslu á
vinsæla áfangastaði.