Einn þeirra viðburða sem ekki var aflýst um komandi verslunarmannahelgi er fjallahlaupið Súlur Vertical en það verður haldið á laugardag. Fyrsta hlaupið var árið 2016 að frumkvæði Þorbergs Inga Jónssonar en UFA Eyrarskokk tók við keflinu ári síðar. Viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári og svo er einnig nú í ár þegar við bætist ný og krefjandi hlaupaleið.
Ný og krefjandi hlaupaleið
Um er að ræða 55 kílómetra leið með um 3 þúsund metra hækkun, en hlaupið er upp á bæjarfjöll Akureyringa, Súlur og Hlíðarfjall og niður á Ráðhústorg þar sem gert er ráð fyrir að hlauparar mæti með bros á vör. Aðrar vegalengdir í hlaupinu eru óbreyttar, 28 kílómetra hlaup upp á Súlur og 18 kílómetra hlaup sem hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Mettími við brúarsmíðina
Nokkrir félagar í UFA Eyrarskokk tóku sig til í byrjun viku og komu nýrri brú fyrir yfir Fremri-Lambá í Glerárdal. Áin sú er helsti farartálmi á leiðinni inn í Lamba og á liðnum vetri eyðilagðist hún einu sinni sem oftar. Þetta var fámennur en harðsnúinn flokkur Eyrarskokkara sem dró á eftir sér efni í nýja brú með eigin vöðvaafli og síðan var tekið til við smíði brúarinnar sem lauk á mettíma.