Ekki stendur til að hætta að bjóða börnum morgunverð á leikskólum Akureyrarbæjar. Frá áramótum verður matseðlum hins vegar breytt á þann hátt að í morgunmat og miðmorgunhressingu verður börnum boðið upp á 2-5 tegundir af ávöxtum og grænmeti, vatn og mjólk, í stað kornmetis sem áður var. Þetta er meðal annars gert með tilvísun til leiðbeininga frá Lýðheilsustöð um að mikilvægt sé fyrir börn að fá um fimm skammta á dag af ávöxtum og grænmeti og að ekki líði of langur tími á milli máltíða.
Einnig hefur verið ákveðið að hafa sama matseðil í öllum leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar. Meginmarkmiðið með þeirri breytingu er að tryggja að öll skólabörn fái hollan og næringraríkan hádegisverð. Matseðillinn mun ná yfir sjö vikur í senn og verður mjög sýnilegur á heimasíðum skólanna. Hægt verður að skoða matseðilinn fyrir hvern dag og sjá innihaldslýsingu máltíðanna og einnig útreiknað næringargildi þeirra sem unnið verður af sérfræðingum. Akureyrarbær hefur gert samning við birgja er annast sölu á kjötvörum, fiski og ávöxtum og grænmeti. Ákveðin krafa var gerð um gæði vörunnar og verður fylgst með að gæðin standist kröfurnar. Samið hefur verið við sérfræðinga um eftirlit með gæðum hráefnisins, segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ.