Lögð verður áhersla á heilsuverndina, heilbrigðisþjónustu við langveik börn og þverfaglega vinnu. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bréfi frá skólaheilsugæslunni til foreldra og forráðamanna skólabarna. Föst viðvera skólahjúkrunafræðinga í skólunum verður minni en áður var og ekki verður lengur boðið upp á opna móttöku hjúkrunarfræðinga. Með því fæst tími til að sinna betur einstaka málum og vinna skipulegar að heilsuverndinni. Eftir sem áður veitir skólahjúkrunarfræðingur sem staddur er í skóla, fyrstu hjálp þegar alvarlegri slys verða í skólanum og er foreldrum/forráðamönnum barna og starfsfólki skólans til stuðnings og ráðgjafar þegar upp koma veikindi, slys og erfiðleikar hjá nemendum.
Foreldrum er annars bent á að snúa sér til heimilslæknis og Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri með heilsufarsmál barna sinna. Ennfremur kemur fram í bréfinu að gott samstarf allra í skólasamfélaginu, þ.e. nemenda, foreldra, starfsfólks skólans og heilsugæslu og eftir þörfum aðila utan skólans sé nauðsynlegt á samdráttartímum. Með góðri samvinnu megi leysa ýmis vandamál og koma í veg fyrir önnur.
Hlutverk heilsugæslu í skólum er að sinna heilsuvernd nemenda, nokkurskonar framhald af ung- og smábarnavernd. Starfsemin er skv. lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda, og er meðal annars fólgin í reglubundum heilsufarsathugunum, ónæmisaðgerðum, heilbrigðisfræðslu og teymisvinnu kringum einstaka mál.