Breiðir út fegurð íslensku sauðkindarinnar

Lambadagatal Ragnars í Sýrnesi er nú orðið 12 vetra gamalt.
Lambadagatal Ragnars í Sýrnesi er nú orðið 12 vetra gamalt.

Lambadagatal 2026 Ragnars Þorsteinssonar, sauðfjárbónda og ljósmyndara í Sýrnesi Aðaldal, er nú orðið 12 vetra og er afar vinsælt.

Ragnar tekur að venju allar myndirnar í dagatalið á sauðfjárbúi fjölskyldunnar í Sýrnesi. Í Lambadagatalinu 2026 eru allar myndir teknar á sauðburði 2025 og þær endurspegla einnig veðurfarið frá þeim árstíma. Uppsetning og hönnun dagatalsins er einnig í höndum Ragnars, ásamt fjármögnun þess og sölu. Dagatalið hefur verið fjármagnað á Karolina fund síðastliðin tíu ár og hefur það verkefni alltaf gengið upp og fjármögnunin núna varð sú mesta sem fram til þessa.

Ragnar segir megintilgang útgáfunnar fyrst og fremst að breiða út fegurð og fjölbreytileika íslensku sauðkindarinnar sem hefur séð þjóðinni fyrir mat og hita frá landnámstíð „og án hennar værum við tæplega til sem þjóð í dag,“ segir hann. „Allir hefðbundnir helgi- og frídagar eru merktir á dagatalið, einnig fánadagar, koma jólasveinanna, gömlu mánaðarheitin, tunglgangur og ýmsir dagar er tengjast sögu lands og þjóðar.

Salan fer eingöngu fram, „beint frá býli,” eins og hann orðar það, á facebook síðunni lambið mitt eða í gengum netfangið lambidmitt@gmail.com. Eins má hringja í síma 8476325 eða mæta í kaffi til Ragnars.

Nýjast