Á fundinum í morgun var skipuð fjögurra manna samninganefnd. Í henni sitja þrír starfsmenn verksmiðjunnar auk Aðalsteins Á. Baldurssonar
formanns Framsýnar- stéttarfélags sem var skipaður formaður nefndarinnar og talsmaður hennar út á við. En forsvarsmenn
Verkalýðsfélags Þórshafnar óskuðu formlega eftir aðkomu Aðalsteins að málinu. Unnið er að því innan
samninganefndarinnar að ganga frá kröfugerð starfsmanna og verður hún tilbúin til kynningar á mánudag. Þá mun líka liggja fyrir
hvort viðræður geti farið fram á Þórshöfn beint við Ísfélagið eða hvort að fyrirtækið vísi
viðræðunum til Samtaka atvinnulífsins. En starfsmenn leggja mikla áherslu á að hægt verði að semja í heimabyggð. Eftir fundinn í
morgun átti samninganefnd starfsmanna óformlegan fund með yfirmanni verksmiðjunnar á Þórshöfn.
Ljóst er að starfsmenn leggja mikla áherslu á að geta átt gott samstarf við Ísfélagið um að hækka laun starfsmanna en þeir
telja að það sé svigrúm hjá útflutningsfyrirtækjum, eins og loðnubræðslum, til að hækka laun verulega. Þá komu
þeir þeim skilaboðum á framfæri við fulltrúa Ísfélagsins á staðnum, að brugðist yrði hart við ef önnur skip en
skip Ísfélagsins sem landa reglulega á Þórshöfn, komi til Þórshafnar til löndunar á meðan á löglegum
verkfallsaðgerðum annarra stéttarfélaga, sem eiga starfsmenn í loðnubræðslum, stendur. Hins vegar er ljóst að starfsmenn loðnuvinnslunnar
á Þórshöfn vilja láta reyna á viðræður áður en tekin verður ákvörðun um að fara í aðgerðir.
Þess vegna er lögð höfuðáhersla á að samningaviðræður geti hafist sem fyrst svo niðurstaða liggi fyrir fljótlega hvort
markmið starfsmanna gangi eftir, þ.e. að semja áður en gripið verður til aðgerða. Þetta kemur fram á vef Framsýnar.