Á heimasíðu Norðurorku er í dag ítarleg og fræðandi frásögn af borun á fyrstu djúpu vinnsluholunni við Ytri-Haga á Árskógsströnd. Holan var boruð í sumar og sáu starfsfólk Ræktunarsambands Flóa og Skeiða um verkið og jarðborinn Sleipnir notaður
Borun á Ytri Haga í sumar
,,Borun hófst í byrjun júlí. Borað var með lofthamri niður á 212 m dýpi en hjólakrónu neðan við það. Þegar 420 m dýpi var náð, að kvöldi 5. ágúst, var borun stöðvuð, holan mæld og fóðurrör síðan sett niður og steypt föst við holuvegginn. Þannig er efri hluti holunnar fóðraður af en fóðringin heldur köldu grunnvatni frá holunni og dregur úr eða tefur fyrir smiti sjávar. Borunin frá 212 m og niður á 420 m gekk hægt fyrir sig, enda bergið hart og krónan sver (17½″ í þvermál). Neðan við 420 m var holan stefnuboruð með 20° halla frá lóðréttu til NNA. Stefnuboraði hluti holunnar boraðist hraðar en efri hlutinn en í honum var borkrónan grennri (12¼″) auk þess sem mótor var í borstrengnum stærstan hluta leiðarinnar. Auk mótors var mælibúnaður í strengnum sem gerði sérfræðingum sem stjórnuðu stefnuboruninni kleift að fylgjast með halla og stefnu holunnar á meðan verið var að bora. Ennfremur var borun stöðvuð reglulega fyrir svokallaðar gýrómælingar til samanburðar en slíkar mælingar eru ótruflaðar af segulmögnun bergsins sem borað er í, ólíkt mælingum úr tækinu í borstrengnum. Reglulega var borstrengur tekinn upp fyrir borkrónuskipti og voru slík tækifæri nýtt til að hitamæla holuna.
Áætlað lokadýpi var 1100-1500 m.
Hallauppbyggingu holunnar var lokið á 830 m. Á meðan verið var að byggja upp hallann hafði holan byrjað að leita of langt til austurs og því þurfti að rétta hana af svo að hún kæmist inn á áætlaðan holuferil. Borað var með mótor niður á 1411 m dýpi. Þá voru m.a. mótorinn og mælibúnaðurinn tekin úr strengnum til þess að létta hann og eiga möguleika á að bora lengra en niður á 1500 m ef ásættanlegum árangri hefði ekki verið náð á því dýpi. Án þessa stýribúnaðar var vitað að holan myndi leita örlítið til austurs en án þess þó að fara út fyrir vikmörk áætlaðs holuferils. Á þessum tímapunkti voru ekki komnar fram skýrar vísbendingar um góðar vatnsæðar og því óljóst hvort holan yrði vel heppnuð eða ekki. Borað var án mótors og með vatni eingöngu niður á 1441 m dýpi en neðan við það var borað með vatni og lofti (sk. jafnvægisborun) en ekki er hægt að beita henni þegar mótor er í strengnum. Með jafnvægisboruninni náðist að hreinsa bergmylsnu (borsvarf) betur úr holunni en áður og við það opnaðist holan, fór að taka við öllu vatni sem á hana var dælt og á tímabili rann mikið magn upp úr henni.
Allt að gerast á Ytri Haga.
Borun vinnsluholunnar lauk þann 8. september síðastliðinn á 1491 m dýpi en áætlað lokadýpi hafði verið 1100-1500 m. Í kjölfarið hófust mælingamenn ÍSOR handa við mælingar í holunni en að þeim loknum var vinnsluhluti holunnar fóðraður með götuðum rörum, svonefndum leiðara. Hlutverk leiðarans er að koma í veg fyrir að hrun úr óstöðugum jarðlögum stífli holuna, sem einkum getur orðið vandamál í stefnuboruðum holum, en jafnframt að hleypa jarðhitavatni inn í holuna. Þegar leiðarinn var kominn í holuna var hún afkastaprófuð en slíkum prófum er ætlað að gefa hugmynd um það hversu vel holan hefur tekist. Í prófinu runnu yfir 100 l/s af um 70°C vatni frá holunni og teljast það jákvæðar niðurstöður sem sýna að holan er vel heppnuð og vatnsgæf.
Hér er þó um að ræða fyrstu mælingar en fyrirhuguð langtímaprófun mun veita ítarlegri upplýsingar um eiginleika holunnar. Að afkastaprófinu loknu var holunni lokað, að kvöldi 11. september, og í framhaldinu var borinn tekinn saman og fluttur í Kröflu þar sem næsta verkefni beið hans."