Vart hefur orðið við vanlíðan hjá börnum og ungmennum sem sækja starf í félagsmiðstöðvum á Akureyri og Ungmenna-Húsi og þykir full ástæða til að vera vakandi yfir ástandinu. Virkið fyrir ungt fólk án atvinnu skiptir máli fyrir þau sem þangað koma. Rannsókn meðal ungmennanna sýnir að þau kunna að meta starfsemina og þá þjónustu og aðhald sem veitt er. Núna er 71 einstaklingur skráður í Virkið. Alls hafa síðan í haust afskráðst 152 sem komnir eru í vinnu, nám eða önnur úrræði. Óvissa er með hvort hægt verði að reka starfsemina áfram í haust þar sem fjármagn hefur ekki verið tryggt. Þetta kemur fram í fundargerð frá fundi almannaheillanefndar í síðustu viku.
Fram kom hjá fulltrúa búsetudeildar, að afleiðingar fíkniefnaneyslu birtist í starfi deildarinnar, sem m.a. rekur áfangaheimili fyrir geðfatlaðra. Verið er að skoða með FSA þjónustu við fólk með geðfatlanir m.a. m.t.t. fyrirbyggjandi þátta. Áframhaldandi mikill þungi er í félagsþjónustunni hjá fjölskyldudeild. Marsmánuður var sá útgjaldamesti sem sést hefur fyrir utan desember. Flestir sem leita til félagsþjónustunnar eigi við mikla erfiðleika að stríða og aðerfitt geti orðið að að vinna með ýmis mál m.a. vegna fíkniefnavanda þeirra sem leiti til deildarinnar. Þessa dagana er unnið að því að koma fólki sem búið er með bótarétt sinn hjá Vinnumálastofnun í vinnu í gegnum átakið Vinnandi vegur. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneyti og Umboðsmanni skuldara er neikvæð greiðslugeta heimila stór vandi m.a. á Akureyri. Þennan vanda þurfi að greina nánar og skoða hvernig hægt sé að bregðast við. Bæjarstjóri fær inn á borð til sín alls kyns mál sem snerta bæjarbúa, m.a. vanda vegna fíkniefnaneyslu, húsnæðismála og fjárhagsvanda.
Aukin verkefni eru á skurðdeild og geðdeild FSA miðað við fyrra ár, án þess að orðið hafi aukning á starfsfólki og greina megi aukið álag. Hátt í annað hundrað ungmenni fái ekki þá hjálp við kvíða og þunglyndi sem þau þyrftu að fá. Faraldsfræðilegar tölur sýni að 10-15% ungmenna á framhaldsskólaaldri glími við andlegan vanda. Fíkniefnavandi kemur inn á borð geðdeildar. Draga þarf úr eftirspurninni eftir fíkniefnum og um það þurfa forvarnir að snúast.
Fram kom hjá fulltrúa MA, að andleg vanlíðan hjá nemendum í fyrsta bekk sé áberandi í vetur en að gott aðgengi sé að geðdeild FSA. Minna hafi orðið vart við fíkniefnaneyslu meðal nemenda en fyrir fimm árum þ.e. nemendur eru ekki að detta úr skóla vegna hennar þótt ljóst sé að neyslan sé samt til staðar. Fulltrúi VMA á fundi almannaheillanefndar sagði að fíkniefnaneyslan væri minna áberandi. Andleg vanlíðan nemenda og úrræðaleysi við að leita sér aðstoðar sé vandi, sem og úthaldsleysi hjá yngri nemendum. Í gegnum Nám er vinnandi vegur er keypt sálfræðiþjónusta og unnið með stelpuhóp og strákahóp. Ekki er vitað með framhald verkefnisins en vonast til að hægt verði að halda áfram. Úttekt sem gerð var á skólanum sl. haust sýnir að ein af þeim ógnum sem við er að etja er að geðheilbrigðisþjónusta á svæðinu er ekki næg. Aðsókn að skólanum næsta vetur virðist ætla að verða svipuð og áður.
Fram kom hjá fulltrúa skóladeildar að hærri gjaldskrá virðist ekki hafa haft áhrif á nýtingu mötuneyta og keypta tíma í leikskólum eins og áhyggjur voru af. Verið sé að skoða frístundamál barna eftir skóla. Mál sem upp komi í skólunum séu þyngri en áður og erfiðara að vinna úr þeim. Vart verður við erfiðleika á heimilum og fáir einstaklingar taka mikla orku frá starfsfólki og nemendum.
Á Akureyri eru án atvinnu í dag 474, 217 karlar og 257 konur. Atvinnulausir að fullu eru 374 eða 79% þeirra sem eru á skrá. Í aldurshópnum 18-25 ára eru 89 án vinnu, 85 á aldrinum 26-30 ára, 164 á aldrinum 31-50 ára og 135 51 árs eða eldri. Á Norðurlandi eystra eru 750 manns án atvinnu. Á fundi almannaheillanefndar var upp spurningum um hvað hægt væri að gera varðandi þá hópa sem lenda í meiri og meiri vanda ýmissa hluta vegna og hvernig hægt væri að koma fólki út úr vítahringnum. Fundarfólk var sammála um að virkja þurfi samfélagið allt í víðtækt forvarnastarf. Foreldrar eru lykilaðilar en einnig þurfi að vekja aðra til ábyrgðar og samkenndar. Mikilvægi fjölmiðla í slíku starfi var einnig rætt. Umræðunni verður haldið áfram á næsta fundi.