Ævintýraheimur íslenskra fugla 1 er barnabók sem var að koma út. Hún er eftir Sigurð Ægisson, ætluð aldurshópnum 1–12 ára og er hugsuð þannig, að pabbi, mamma, afi eða amma eða þá eldri systkin lesi úr henni fyrir þau allra yngstu á kvöldin og e.t.v. spjalli um innihaldið. Önnur, sem komin eru í fyrstu bekki grunnskóla, eiga að geta notið hennar án aðstoðar.
Þarna er um að ræða ýmsan fróðleik um 16 fuglategundir af þeim 75–80 tegundum sem eru hér reglubundnir varpfuglar. Þetta eru: álft, glókollur, heiðlóa, helsingi, hrafn, hrossagaukur, kría, krossnefur, lundi, maríuerla, músarrindill, rjúpa, snjótittlingur, spói, svartþröstur og æðarfugl.
Gert er ráð fyrir nokkrum öðrum bókum í sama flokki á næstu árum, uns búið verður að dekka allar varptegundir okkar. Hin síðasta mun fjalla um 16 langt að komna gesti, en á Íslandi hafa sést rúmlega 400 fuglategundir frá upphafi skráningar.

Heiðlóan er ein af þeim fuglum sem fjallað er um í bók Sigurðar Ægissonar.
Fékk börn til liðs við sig
Bókarhöfundur hefur fengið til liðs við sig börn á þessu aldursbili, sem bókin er ætluð, og þau hafa ort fyrir hann ljóð um viðkomandi fugla, eitt um hvern, sem verður í lok umfjöllunar um hverja tegund. Mikið hefur verið lagt upp úr því að hafa þau sem víðast að af landinu og að þessu sinni eru þau frá Akureyri, Borgarfirði eystra, Búðardal, Djúpavogi, Hellissandi, Húsavík, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Kópavogi, Langanesbyggð, Reykjavík, Selfossi, Siglufirði, Skagaströnd, Tálknafirði og Vestmannaeyjum.
Myndirnar eru gerðar af listakonu í Indónesíu, Ratih Dewanti, sem að auki er líffræðingur að mennt.