Björn endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins.
Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins.

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins og Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir varaformaður, en þau hafa bæði gengt umræddum embættum frá því vorið 2011. Framhaldsþing sambandsins var haldið í vikunni og átti Eining-Iðja 18 fulltrúa á þinginu en alls sátu það 134 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum. Ný lög sambandsins voru samþykkti á þinginu, þar sem umtalsverðar breytingar eru gerðar á stjórnskipulagi, hlutverki og starfsemi sambandsins. Að auk voru samþykktar fjórar nýjar reglugerðir sem er ætlað að styrkja starfsemina, efla upplýsingamiðlun SGS og skilgreina verkaskiptingu milli aðildarfélaganna og sambandsins.

Niðurstaða þingsins er afrakstur mikillar vinnu sem farið hefur fram á vegum sambandsins undanfarna mánuði. Síðastliðið haust var ákveðið að ráðast í gagngera endurskoðun á hlutverki, starfsemi, stjórnkerfi, rekstri og lögum sambandsins. Tillögur starfshóps sem skipaður var á þingi SGS í október sl. voru lagðar fram fyrir framhaldsþingið og samþykktar. Tillögurnar breyttust lítillega í meðferðum þingsins, en miklar umræður sköpuðust um vissar tillögur. Ein veigamesta breytingin er að vægi formannafunda er aukið og skulu þeir haldnir að lágmarki 3-4 sinnum á ári. Þá er fækkað í framkvæmdastjórn sambandsins úr þrettán í sjö. Nokkur umræða skapaðist á þinginu um þá tillögu starfshópsins sem gerði ráð fyrir því að eingöngu skyldi horft til þess að hlutfall kynja væri sem jafnast í framkvæmdastjórn, en ekki ekki væri tekið tillit til landshluta eða starfsgreina.Tillaga starfhópsins var samþykkt en þess má geta að í nýrri framkvæmdastjórn eru þrjár konur og fjórir karlar, segir á vef Einingar-Iðju.

Ný stjórn er skipuð eftirfarandi einstaklingum:

Formaður: Björn Snæbjörnsson, Eining-Iðja

Varaformaður:  Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, AFL Starfsgreinafélag

Meðstjórnendur:

Aðalsteinn Á. Baldursson, Framsýn stéttarfélag

Halldóra Sveinsdóttir, Báran stéttarfélag

Kolbeinn Gunnarsson, Vlf. Hlíf

Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands

Sigurður Bessason, Efling stéttarfélag

 

Nýjast