Björgunarsveitirnar Dalbjörg úr Eyjafirði og Súlur á Akureyri eru nú á leið að Vegamótavatni, austan Hofsjökuls, að sækja slasaðan skíðamann. Er talið að hann sé úlnliðsbrotinn eftir fall. Maðurinn er breskur og hugðist ganga á skíðum þvert yfir landið að norðan, suður í Vík, í fjáröflunarskyni. Björgunarsveitir eru í símasambandi við manninn sem hefst nú við í tjaldi sínu og bíður aðstoðar. Fjórir bílar og fjórir vélsleðar eru á leið á slysstað og er gert ráð fyrir að ferðin taki nokkrar klukkustundir. Samkvæmt upplýsingum frá jeppamönnum sem voru á ferð á svæðinu í gær er færðin þung fyrir bíla en ágæt fyrir sleða. Verið er að skoða hvort þyrla LHG geti sótt manninn.