Bjartsýnn á að sumarið verði gott

„Þetta fer alveg ágætlega af stað, án þess þó að hægt sé að tala um sprengingu," segir Tryggvi Marinósson framkvæmdastjóri Hamra, útilífs- og umhverfismiðstöðvar.  Skátar sjá einnig um Tjaldvæðið í Þórunnarstræti.  Nýliðinn júní mánuður var góður hvað gestafjölda varðar og þá var margt um manninn á tjaldsvæðunum  um liðna helgi.   

Mikið hefur einnig verið um ferðafólk í miðri viku, t.d var álíka margt fólk á Hömrum sl. mánudag og að jafnaði dvelur þar á föstudögum. Tryggvi segir að fleiri gestir hafi sótt tjaldsvæðið heim það sem af er ári samanborið við árið í fyrra, en það skýrist m.a. af því að í fyrrasumar var ágætis veður um land allt en íslenskt ferðafólk fer gjarnan á þá staði þar sem veðrið er best. "Það var yfirleitt gott veður fyrir sunnan í fyrra og þá er fólk ekki að fara lengra en það þarf," segir Tryggvi.  Júnímánuður var góður og það sama má segja um maí, en öllum að óvörum var mikið um að fólk væri á ferðinni um Hvítasunnuhelgina að þessu sinni. Mun fleiri gestir voru því á tjaldsvæðunum í maí miðað við í fyrra.

Margt var um manninn tjaldsvæðum bæjarins um síðustu helgi og heldur fleiri en á sama tíma í fyrra, en um 1000 fleiri gistinætur voru skráðar nú samanborið við fyrstu helgina í júlí í fyrra. Gert ráð fyrir að það sama verði uppi á teningnum nú þegar landsmótsgestir sækja bæinn heim í stríðum straumum.  Tryggvi segir að tvær nýjar flatir hafi verið teknar í notkun á Hömrum í vor, önnur stór og hin í meðallagi.  „Það munar um þetta aukna rými og því finnst okkur ef til vill að hér séu ekki svo margir gestir, þeir dreifast um stærra svæði en áður og það munar um þessar flatir," segir Tryggvi.

Hópur danskra skáta hefur verið á svæðinu þessa viku og þá verður innan skamms haldið þar alþjóðlegt skátamót, þar sem fimm þjóðir taka þátt, um 250 manns. „Það er alltaf eitthvað um að vera hér hjá okkur og ég er bjartsýnn á að þetta sumar komi vel út," segir Tryggvi.

Nýjast