Bjarni Jónasson starfsmannastjóri Sjúkrahússins á Akureyri hefur verið settur forstjóri FSA til 1. febrúar 2013 þegar námsleyfi Halldórs Jónssonar lýkur. Hann tekur við stöðunni af Þorvaldi Ingvarssyni, sem gegnt hefur stöðunni frá því að Halldór fór í leyfi. Bjarni hefur verið starfsmannastjóri sjúkrahússins frá 2007 og þar á undan verkefnastjóri gæðamála og stefnumótunar frá 2005. Þá hefur hann verið forstöðumaður Heilbrigðisvísindastofnunar Háskólans á Akureyri. Bjarni hefur langa reynslu af stjórnun og rekstri.
Í pistli til starfsfólks sem Þorvaldur fráfarandi forstjóri skrifar á vef FSA, kemur m.a. fram að ársreikningur sjúkrahússins fyrir árið 2011 sé að líta dagsins ljós. Þrátt fyrir hallarekstur verður ársreikningur okkar jákvæður sem hjálpar okkur á þessu ári. Starfsemin það sem af er árs hefur aukist mikið, langt umfram það sem við eigum að venjast og á því þurfum við að leita skýringa. Í þessari stöðu hafið þið sýnt ótrúlegan dugnað og fórnfýsi í störfum ykkar fyrir sjúkrahúsið og sjúklingana okkar, segir Þorvaldur.
Hann segir að síðasta ár hafi verið viðburðaríkt og gjöfult á margan hátt. Við höfum gengið saman í gegnum miklar breytingar og náð að sameinast um nýja stefnu og framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri. Það var vinna sem við fórum í saman og getum verið stolt af. Henni er ekki lokið - nú þurfum við í sameiningu með nýrri framkvæmdastjórn og forstjóra að klára verkið með innleiðingu hennar. Framkvæmdastjórn hefur hrundið stórum hluta af lykilaðgerðum ársins í framkvæmd en mikið verk er óunnið en þetta verk verður seint klárað og er alltaf í mótun. Ein af lykilaðgerðum ársins leit dagsins ljós í gær en þá var nýr ytri vefur sjúkrahússins opnaður, hann er glæsilegur og sýnir sókn okkar inn í nýja tíma.