Bjarni Fritzson, leikmaður Akureyrar, var valinn í úrvalsliðið fyrir síðasta þriðjung N1-deildar karla í handknattleik, umferða 15-21, sem besti hægri hornamaðurinn en valið var kunngert í höfuðstöðum HSÍ í dag. Þá fékk Akureyri verðlaun fyrir bestu umgjörð á heimleikjum. Sveinn Þorgeirsson, Haukum, var valinn besti leikmaðurinn og einnig besti varnarmaðurinn.
Úrvalsliðið var þannig skipað: Markvörður Aron Rafn Eðvarðsson, Haukum, línumaður Heimir Óli Heimisson, Haukum, vinstra horn Bjarki Már Elísson, HK, hægra horn Bjarni Fritzson, Akureyri, vinstri skytta Stefán Rafn Sigurmannsson, Haukum, hægri skytta Ólafur Gústafsson, FH og miðjumaður Ólafur Bjarki Ragnarsson, HK.
Þá voru þeir Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson útnefndir bestu dómararnir.