Ferðaheildsalinn Tui veitti nýlega Bílaleigu Akureyrar umboðsaðila Europcar á Íslandi verðlaun fyrir hæstu hlutfalls ánægju viðskiptavina. Árlega veitir Tui, sem er einn stærsti ferðaheildsali heims, verðlaun til samstarfsaðila sinna í ýmsum greinum ferðaþjónustunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu. Verðlaunin voru veitt í Hanover að þessu sinni og hlaut Bílaleiga Akureyrar verðlaun í flokki bílaleiga með 200-2000 bókanir en í þeim flokki eru meira en 100 bílaleigur víðs vegar um heiminn. Mælt er hlutfall milli bókana og kvartana og mældist Bílaleiga Akureyrar með 99.8% ánægðra viðskiptavina.
„Við erum ákaflega stolt af þessum verðlaunum, að vera með þetta hátt hlutfall ánægðra viðskiptavina hjá þessum stóra ferðaheildsala er frábær árangur,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar. „Við höfum alla tíð lagt höfuðáherslu á að veita góða, lipra og persónulega þjónustu. Því er alveg sérstaklega ánægjulegt að fá þessi verðlaun frá Tui sem eru um leið staðfesting á því að okkar frábæri hópur starfsfólks er að standa sig vel. Fyrr á þessu ári fengum við einnig verðlaun frá Europcar samsteypunni fyrir framúrskarandi árangur í rekstri og þjónustu sem okkur var mikill heiður að fá,“ segir Steingrímur.