Seinni hluti bikarmóts Blaksambands Íslands fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri um helgina, dagana 10. og 11. febrúar. Keppt verður í karla-og kvennaflokki og komast tvö efstu liðin úr hvorum hópi áfram í úrslitakeppnina sem fram fer í Laugardalshöllinni dagana 16.-18. mars nk. Í kvennaflokki berjast KA, Þróttur R., Stjarnan, Eik, HK og Ýmir um tvö sæti en í karlaflokki heimamenn KA, Fylkir, Stjarnan, UMFG og Þróttur N. Karlalið HK og Þróttar R. og kvennalið Aftureldingar og Þróttar N. hafa þegar unnið sér inn keppnisrétt í undanúrslitum. Auk þess að keppa á mótinu er Eikin jafnframt mótshaldari. Fyrstu leikirnir hefjast klukkan 19:00 á föstudagskvöldið og heldur keppni áfram klukkan 09:00 á laugardagsmorgun. Áætluð mótslok eru um klukkan 17:30 á laugardag.