Best hjá Þór 2025

Íþróttakona og karl  Þórs 2025          Myndir Thorsport/Skapti Hallgrímsson
Íþróttakona og karl Þórs 2025 Myndir Thorsport/Skapti Hallgrímsson

Í gær var tilkynnt hvaða einstaklingar hefðu hlotið sæmdarheitin Íþróttakona og Íþróttakarl hjá Þór árið 2025. Í kvennaflokki var fótboltakonan Hulda Björg Hannesdóttir kjörin og er það í fyrsta sinn sem hún hlýtur viðurkenninguna. Í karlaflokki var það fótboltamaðurinn Sigfús Fannar Gunnarsson sem var kjörinn og er það einnig fyrsta skiptið sem hann hlýtur þessa viðurkenningu.

Íþróttakona Þórs 2025 - Hulda Björg Hannesdóttir

Hulda Björg hefur verið lykilmaður í meistaraflokki Þórs/KA undanfarin ár. 2025 spilaði hún alla leiki liðsins í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum, alls 30 leiki. Hún tók við fyrirliðastöðunni síðsumars og leiddi liðið á erfiðum og spennuþrungnum lokaspretti Íslandsmótsins þar sem hún hjálpaði liðinu að tryggja áframhaldandi veru í deild þeirra bestu.

Hulda Björg er ósérhlífin og setur liðið alltaf í fyrsta sæti. Hún leiðir liðið með krafti og dugnaði og er öðrum hvatning innan sem utan vallar. Hulda Björg á að baki 238 leiki með meistaraflokki Þórs/KA í KSÍ-mótum og Meistaradeild Evrópu, þar af eru 169 í efstu deild og fimm Evrópuleikir.

Íþróttamaður Þórs 2025 - Sigfús Fannar Gunnarsson

Sigfús var valinn besti leikmaður meistaraflokks Þórs keppnistímabilið 2025. Sigfús var lykilmaður í liði Þórs sem vann B-deildina í ár og var jafnframt markahæsti leikmaður deildarinnar með 15 mörk í 21 leik. Alls skoraði Sigfús 19 mörk í 28 leikjum á árinu þegar bikarkeppni og deildarbikar er talið með. Sigfús Fannar var valinn besti leikmaður deildarinnar af Fótbolta.net.

Sigfús er 23 ára gamall og hefur leikið alls 65 leiki í deild og bikar fyrir Þór og skorað 23 mörk. Framfarirnar hjá Sigfúsi í ár voru eins og sjá má á tölfræðinni gríðarlegar.

Sigfús Fannar er uppalinn hjá Þór og fór upp í gegnum alla yngri flokka félagsins. Á þeirri leið hefur hann þurft að leggja mikið á sig og unnið fyrir því að fá tækifæri með meistaraflokki félagsins. Hann er yngri iðkendum góð fyrirmynd þegar kemur að því að leggja sig fram á æfingum og gefast ekki upp þegar á móti blæs, sem gerist alltaf á einhverjum tímapunkti í öllum íþróttum.

www.thorsport.is sagði frá

Nýjast