Slökkvilið Akureyrar barðist í alla nótt við eld í 2.000 fermetra iðnaðarhúsnæði við Goðanes 12, þar sem Bátasmiðjan Seigur er með starfsemi sína. Slökkviliði barst tilkynning um eldinn um klukkan 00.40. Húsið varð fljótlega alelda, sem bendir til þess að eldurinn hafi kraumað þar í dágóða stund áður. Frá þessu er greint á vef Rúv.
Slökkvistarf er langt komið. Vinnuvél með svokallaðri krabbakló er komin á staðinn til að opna slökkviliði leið að því sem eftir er af eldi. Götur í kring eru enn lokaðar og almenn umferð þar óheimil. Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, sagði í samtali við Rúv að húsið væri gjörónýtt.