Barnshafandi kona dæmd í fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni

Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri

Kona á fertugsaldri var nýverið dæmd í héraðsdómi Norðurlands eystra í átta mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni.

Konunni var gefið að sök að hafa miðvikudaginn 28. desember á síðasta ári hótað tveimur lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra auk þess að hafa gert tilraun til að sparka í annan þeirra. Hún hótaði lögreglumönnunum í íbúðarhúsi á Akureyri þar sem hún var handtekin og hélt áfram að hóta þeim þegar komið var á lögreglustöðina á Akureyri.

Konan hefur áður verið dæmd í 90 daga fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára þann 13. desember 2016, fyrir brot gegn valdstjórninni. Hún rauf því skilorð og var fyrri dómurinn tekin upp og dæmdur með að þessu sinni. Þá hefur konan einnig verið dæmd tvíveigis fyrri ölvunarakstur, nytjastuld og fyrir að hafa ekið ökutæki svipt ökurétti.

Fyrir dómi 16. júní sl. játaði konan skýlaust brot sitt. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að konan hafði áður gerst sek um sama brot og þótti refsing hæfileg 8 mánaða fangelsi. Við meðferð málsins fyrir dómi lagði verjandi konunnar fram vottorð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, sem dagsett er 14. júní 2017.  Í vottorðinu kemur fram að konan sé nú þunguð af sínu sjötta barni og eigi von á sér um miðjan nóvember næstkomandi.  Í vottorðinu segir einnig frá því að ákærða hafi mætt vel í hefðbundið meðgöngueftirlit og að þann 12. júní sl. hafi verið tekin þvagprufa fyrir fíkniefnum, og að sú prufa hafi verið „alveg hrein.“

Vegna aðstæðna konunnar var að áliti dómsins rétt að fresta fullnustu refsingar haldi konan skilorð í þrjú ár. Þá var frestun refsingar einnig bundin því að konan sæti sérstakri umsjón á skilorðstímanum. „Að öllu ofangreindu virtu, en einnig með hliðsjón af undanbragðalausri játningu ákærðu fyrir dómi, þá sérstaklega í ljósi áðurgreindra aðstæðum hennar, er að áliti dómsins rétt að fresta fullnustu refsingar hennar með skilyrðum.  Skal refsing ákærðu þannig niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms að telja, haldi hún almenn skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1995.  Þá þykir einnig rétt, svo sem atvikum máls er háttað, að binda frestun fullnustunnar því skilyrði að ákærða sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19/1940.  Gert er ráð fyrir að Fangelsismálastofnun tilnefni þann aðila sem hafa skal með hendi umsjónina,“ segir í dómnum.

Þá var konan dæmd til að greiða verjanda sínum 194.990 krónur í málsvarnarlaun.

 

Nýjast