„Þetta er líflegt leikrit og mikið að gerast, fullt af lífi og fjöri“ segir Pétur Guðjónsson, en nýtt barnaleikrit eftir hann verður frumsýnt í Laugaborg í Eyjafirði í ágúst. Verkið heitir Gutti&Selma og ævintýrabókin. Hópur sem kallar sig Draumaleikhúsið setur sýninguna upp og er það gert í samvinnu við Handverkshátíð á Hrafnagili.
„Þetta er söngleikur og hann varð til seint á liðnum vetri. Eftir að ég leikstýrði Ávaxtakörfunni hjá Leikfélagi Verkmenntaskólans á Akureyri höfðu forsvarsmenn Handverkshátíðar samband við mig og greindu frá því að þau hefðu áhuga fyrir að bjóða upp á barnasýningu í Laugaborg í tengslum við hátíðina,“ segir Pétur um tilurð verksins.
Mörg þekkt sönglög prýða verkið, lög á borð við; Lagið um það sem er bannað, Guttavísur, Skýin og Ég langömmu á, svo örfá séu nefnd.
Aðalhlutverkin eru í höndum Eyþórs Daða Eyþórssonar sem leikur Gutta og Birgittu Bjarkar Bergsdóttur sem leikur Selmu.
Söngleikurinn verður sýndur tvisvar á dag þá daga sem Handverkshátíð stendur yfir, frá fimmtudeginum 9. ágúst til sunnudagsins 12. ágúst.