Bandarískir sóknarmenn á leið í Þór/KA

Tveir bandarískir sóknarmenn eru á leiðinni í raðir Þórs/KA og munu spila með liðinu í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Samkvæmt heimildum Vikudags verður gengið frá samningum við leikmennina tvo, sem eru 22 og 23 ára, á næstu dögum og koma þeir til með að styrkja sóknarlínu liðsins, sem beðið hefur töluverða hnekki frá því í haust. Þór/KA hefur misst þær Mateju Zver, Rakel Hönnudóttir og Manya Makoski frá liðinu og einnig ríkir óvissa með þátttöku Katrínar Ásbjörnsdóttur í sumar. Katrín, sem kom frá KR fyrr í vetur, meiddist á landsliðsæfingu á dögunum og ekki ljóst enn hversu alvarleg meiðsl hennar eru.

Markvörðurinn Berglind Magnúsdóttir hefur ákveðið hætta með liði Þórs/KA og er gengin í raðir danska fyrstu deildarliðsins ASA Fodbold Klub. Berglind á alls 60 leiki að baki með meistaraflokki Þórs/KA og hefur verið aðalmarkvörður félagsins síðan árið 2008. Þór/KA hafði áður fengið bandaríska markvörðinn Chantel Nicole Jones til liðsins, sem kemur til með að berjast um markvarðarstöðuna hjá liðinu við Helenu Jónsdóttir.

Nýjast