Bakaríið við brúna býður upp á sérstaka afmælistertu

Afmælistertan er girnileg.
Afmælistertan er girnileg.

Á þessu ári eru 150 ár liðin frá því Akureyri hlaut kaupstaðarréttindi og eins og komið hefur fram verður tímamótunum fagnað allt árið með margvíslegum hætti. Efnt var til hönnunarsamkeppni á afmælismerki, á vegum Akureyrarbæjar í samstarfi við Myndlistarskólann sl. haust, og var verkefnið lagt fyrir 22 nemendur, á fyrsta, öðru og þriðja ári, við listhönnunardeild skólans. Fyrir valinu varð merki Sigrúnar Bjargar Aradóttur. Afmælisnefndin hefur m.a. hvatt matvælafyrirtæki í bænum til þess að nýta sér afmælisárið og þá afmælismerkið, í samstarfi við nefndina og bjóða upp á sérstakar afmælisvörur. Bakaríið við brúna var fyrst fyrirtækja til að ríða á vaðið en í gær, á konudaginn, var sérstök afmælisterta kynnt formlega, terta sem verður í boði allt þetta ár. Af þessu tilefni heimsóttu fulltrúar í afmælisnefnd bæjarins og starfsfólk nefndarinnar, bakaríið í morgun, þar sem þeim gafst kostur á að bragða á tertunni. Tertan bragðaðist vel og sagði Tryggvi Þór Gunnarsson formaður afmælisnefndar, að það væru sóknarfæri fyrir fyrirtæki í bænum að nýta sér þessi tímamót. Hann sagðist jafnframt vonast til að fleiri fyrirtæki myndu fylgja í kjölfarið og nýta sér afmælið og afmælismerkið til að koma vörum sínum á framfæri.  Auk Tryggva eru í afmælisnefndinni þær Helena Þ. Karlsdóttir og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir en starfsmenn nefndarinnar eru Hulda Sif Hermannsdóttir, Pétur Bolli Jóhannesson og Sigríður Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri afmælisársins.

Nýjast