Bændur þokkalega birgir af heyi

„Heilt yfir er staðan almennt góð hvað heyfeng snertir í Eyjafirði,“ segir  Ólafur G. Vagnsson ráðunautur hjá Búgarði.  Bændum ber að skila inn forðagæsluskýrslum fyrir 10. desember en skýrslurnar hafa streymt inn síðustu daga. Ólafur segir að flestir bændur séu þokkalega vel birgir af heyi fyrir veturinn, fáir eigi þó verulega mikið umfram það sem þeir þurfa. 

„Hjá langflestum er staðan góð, en auðvitað eru á því örfáar undantekningar,“ segir hann.   Athyglisvert sé að bændur á þeim svæðum sem urðu fyrir mestum búsifjum á liðnu vori vegna kalskemmda, eigi samt sem áður ágætis heyfeng.  Þeir hafi enda lagt mikla vinnu og kostnað við endurvinnslu túna og eins hafi sumir leigt tún á eyðijörðum og eða ræktað grænfóður til að ná inn nægilegu magni af heyi fyrir veturinn.  

„Staðan hjá þessum bændum er eiginlega ótrúlega góð miðað við hvað útlitið var svart eftir kalt vor og kuldatíð langt fram á sumar,“ segir Ólafur.  Hann segir kostnað við endurvinnslu túna óhemju mikinn hjá þeim sem mest lögðu á sig í þeim efnum, en dæmi eru um að bændur hafi endurunnið allt að 50 ha tún.  Verð á hvern ha er að sögn Ólafs á bilinu 150 til 200 þúsund krónur.

Ástandið er verra þegar litið er austur í Þingeyjarsýslu en samkvæmt forðagæsluskýslum sem borist hafa þaðan eru bændur almennt tæpir á heyforða fyrir veturinn, þannig að lítið má út af bregða næsta vor svo ekki stefni í óefni. Kalt vor og kal í túnum er helsta ástæða lítillar uppskeru þingeyskra bænda.

Nýjast