Ennfremur segir í bókun frá bæjarstjórnarfundi í gær: Virkjun þeirra miklu orkulinda sem eru á Þeistareykjasvæðinu og uppbygging atvinnufyrirtækja sem nýta þessa orku mun hafa mikil áhrif á atvinnu- og búsetumál á Norðausturlandi. Bæjarstjórn skorar þess vegna á stjórnvöld að tryggja framgang þessa máls.
Það var að ósk bæjarfulltrúanna Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur og Hermanns Jóns Tómassonar að tekin yrði til umræðu
tillaga til þingsályktunar um rannsóknarboranir á Þeistareykjum sumarið 2009 og undirbúning fyrir álver á Bakka. Bókun
bæjarstjórnar var samþykkt með átta atkvæðum gegn tveimur atkvæðum Baldvins H. Sigurðssonar og Kristínar Sigfúsdóttur. Oddur
Helgi Halldórsson sat hjá við afgreiðslu. Baldvin og Kristín létu bóka eftirfarandi:
"Það er ótækt að ríkið mismuni þeim aðilum, sem sækjast eftir að kaupa orku af Þeistareykjum ehf. Það samræmist ekki
vinnubrögðum, sem stunduð eru við sölu á orku til orkufreks iðnaðar að ganga í berhögg við möguleika heimamanna til að hafa
áhrif á hverjir kaupi orkuna. Þingsályktunartillagan gerir aðeins ráð fyrir að orkan sé seld til Alcoa vegna álvers á Bakka.
Alcoa féll frá fyrirhuguðum stuðningi við rannsóknarboranir á Þeistareykjum á síðasta ári vegna verðhruns og
óvissu á mörkuðum. Þar með hafa Þeistareykir ehf. ekki skuldbindingar gagnvart Alcoa á nokkurn hátt.
Við mótmælum harðlega að ríkið beiti sér fyrir fjármögnun rannsókna vegna álvers á Bakka og gerð
fjárfestingasamninga við Alcoa nú, þegar umræður standa yfir við önnur fyrirtæki um kaup á raforku frá Þeistareykjum. Slíkt
væri í hrópandi andstöðu við samkeppnisreglur.
Norðurorka er hluthafi í Þeistareykjum ehf. og hefur lagt mikið undir við fjármögnun á því félagi. Það er því
óskiljanlegt að fram komi þingsályktunartillaga sem útilokar möguleika á sölu raforku frá svæðinu til atvinnuuppbyggingar, sem frekar
er í sjónmáli en álver á Bakka. Skattgreiðendur á Akureyri eru í ábyrgðum vegna fjármögnunar hluta
Norðurorku í Þeistareykjum ehf. og óásættanlegt að Norðurorku sé haldið í gíslingu Alcoa meðan afborganir og vextir hrannast
upp. Öruggasta leiðin til að afla fjár til frekari rannsókna á Þeistareykjum er að áhugasamir kaupendur að orkunni finnist hið
fyrsta og leggi fé í frekari rannsóknir til orkuöflunar inn í Þeistareyki ehf."