Atvinnulausum á svæðinu fækkað frá miðjum mars

Atvinnulausum á Akureyri og Norðurlandi eystra hefur fækkað töluvert á síðustu sex vikum. „Á tímabilinu frá 15. október til 15. mars fjölgaði atvinnulausum nánast daglega og var botninum náð um miðjan mars. En frá þeim tíma hefur atvinnulausum fækkað," segir Soffía Gísladóttir hjá Vinnumiðlun Norðurlands eystra.  

Atvinnulausir voru 1539 í gær en þegar verst lét um miðjan mars voru atvinnulausir 1640 talsins á Norðurlandi eystra. Þar af voru atvinnulausir á Akureyri um 1200 talsins en voru 1270 um miðjan mars. Soffía segir ástæður þess að atvinnulausum fækki nú vera nokkrar, byggingarfyrirtæki séu með ágætis stöðu fyrir sumarið, ferðaþjónustan sé nú að ranka við sér ásamt því að tímabundin störf séu að skapast til að mynda við sauðburð. Þá sagði Soffía að töluvert sé um að fyrirtæki sem skertu starfshlutfall starfsmanna sinna um síðustu áramót séu smám saman að auka starfshlutfallið að nýju.

Loks má að miklu leyti þakka fjölgunina nýju átaki Vinnumálastofnunar sem nefnist Samvinna. Í því felst að atvinnurekandi ræður einstakling sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Atvinnurekandinn greiðir einstaklingnum laun samkvæmt gildandi kjarasamningum en á móti þeim greiðslum greiðir Vinnumálastofnun atvinnurekandanum grunnatvinnuleysisbætur einstaklings. Nánari upplýsingar um átakið má nálgast á http://www.vinnumalastofnun.is/

Erfitt haust framundan?

Soffía sagði að búast megi við að búast megi við enn frekari fækkun á atvinnuleysisskrá í byrjun maí og engar frekar uppsagnir séu sjáanlegar í bili. Hins vegar sé staðan ekki góð fyrir haustið. Byggingafyrirtæki hafi mörg hver ekki nánda nærri nógu góða verkefnastöðu þegar hausta tekur. „Haustið er aðaláhyggjuefni okkar þessa stundina og mikill hluti okkar vinnu fer í það nú að finna lausnir á því vandamáli," sagði Soffía að lokum.

Nýjast