Jónas Vigfússon sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit segir að gert hafi verið ráð fyrir að kostnaður í ár yrði um 2,5 milljónir króna, en hann fór yfir þá upphæð og náðist ekki að ljúka verkinu, þ.e. að úða öll þau svæði sem fyrirhugað var að fara yfir. Átakið hefur staðið yfir í fjögur ár og er markmið þess að hefta útbreiðslu skógarkerfils og eyða honum. Haldið verður áfram með þetta verkefni á næsta ári að sögn sveitarstjóra. Jónas segir að takist ekki að uppræta kerfilinn leggi hann undir sig landbúnaðarland og við það sætti menn sig ekki.
Með samþykkt sveitarstjórnar er verið að brúa bil sem skapaðist, en sveitarstjórn beindi því jafnframt til umhverfisnefndar og landbúnaðar- og atvinnumálanefndar að endurskoða verklag við verkefnið með tilliti til fjármögnunar og eins að kanna hvort hægt verði að fá virðisaukaskatt endurgreiddan.