Kveikjan að þessari undirskriftarsöfnun er það stjórnarfars- og efnahagsástand sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag, segir í fréttatilkynningu sem Ásta Hafberg og Rakel Sigurgeirsdóttir hafa sent frá sér. Kosningar síðastliðið haust vöktu mörgum vonir um breyttar áherslur í efnahags- og atvinnumálum. Þær vonir hafa orðið að engu hjá mörgum. Hún hefur heldur ekki farið fram hjá neinum hin sívaxandi samstaða meðal þjóðarinnar í að mótmæla ýmsum stjórnsýslulegum ákvörðunum.
Niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni hefur mætt harðri gagnrýni hvarvetna um landið og í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um landsdóm þ. 28. september sl. tóku mótmælin sig upp enn og aftur hér í Reykjavík og þá af enn meiri krafti en áður. Í viðtölum fjölmiðla við mótmælendur sem teknir voru tali við þingsetninguna þ. 4. október sl. ber mjög við sama tón. Viðmælendur segjast ekki treysta þjóðþingi okkar Íslendinga. Þeir álíta að þjóðstjórn eða kosningar muni engu breyta enda sýna nýjustu tölur að Alþingi nýtur innan við 10% trausts þjóðarinnar.
Við þessar aðstæður er utanþingsstjórn eina færa leiðin til að mynda starfhæfa stjórn sem getur tekið á þeim knýjandi vandamálum sem ógnar íslensku samfélagi. Utanþingsstjórn hefur einu sinni verið mynduð hér á landi. Það var þegar Sveinn Björnsson þáverandi ríkisstjóri leysti stjórnarkreppu í landinu árið 1942 með því að skipa slíka stjórn. Hún sat frá desember 1942 fram í október 1944. Nokkrum sinnum síðan hefur myndun utanþingsstjórnar komið til tals bæði innan og utan þings. Umræðan um myndun slíkrar stjórnar hefur þó aldrei verið jafn hávær og nú.
Skipun utanþingsstjórnar er ekki aðeins nauðsynleg til lausnar á stjórnkreppunni í landinu heldur fyrst og fremst til að leysa þá efnahagskreppu sem er að sundra þjóðinni. Það getur hreinlega verið lífsspursmál að bregðast við skuldavanda heimilanna og því alvarlega ástandi sem ríkir í atvinnumálum þjóðarinnar. Auk þess þarf að endurmeta efnahagsstefnu landsins. Þetta yrðu forgangsverkefni þeirrar utanþingssjórnar sem undirskriftarsöfnunin kallar eftir.
Ábyrgðarmenn áskorunarinnar eru úr hópi þeirra sem hafa staðið að tunnumótmælunum að undanförnu. Sá hópur hefur boðað til nýrra mótmæla 4. nóvember n.k. í tilefni þess að Alþingi kemur saman á þeim degi eftir þinghlé í eina og hálfa viku. Tilgangur mótmælanna er að undirstrika það að tími þingsins til að bregðast við og leysa vanda þjóðarinnar er útrunninn. Við gerum þá kröfu að Alþingi styðji skipun utanþingsstjórnar sem við treystum til að leiðrétta kjör almennings í landinu. Við skorum á atvinnurekendur og stofnanir að gefa starfsfólki sínu frí þennan dag og landsbyggðarfólk að taka sér ferð á hendur og fjölmenna á Austurvöll. Það hefur nefnilega sýnt sig að samstaða er aflið sem þarf til að knýja fram breytingar, segir ennfremur í fréttatilkynningunni.