Árstekjur af 16 þúsund útlendum ferðamönnum um 1,5 milljarður

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.

Flugklasinn Air 66N stefnir á að koma á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið. Markmiðið er að fjölga ferðamönnum á öllu Norðurlandi og lengja dvöl þeirra. Verkefnið er sett upp til 5 ára og er miðað við að gerður verði þriggja ára samningur við flugfélag um reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll.

Framhaldsstofnfundur Air 66N fyrir hagsmunaaðila og þá sem hafa áhuga á að leggja málefninu lið var haldinn í Hofi nýlega. Þar fór Arnheiður Jóhannsdóttir verkefnisstjóri yfir helstu verkefni Air 66N, áætlanir um samstarf, kostnað við að koma á reglulegu millilandaflugi og fjármögnun. Sigrún Hlín Sigurðardóttir, þróunarstjóri markaðsmála innanlands hjá Ferðamálastofu fjallaði um vöruþróunarverkefni og gaf dæmi um árangursrík samstarfsverkefni. Guðný María Jóhannsdóttir hjá Isavia fór yfir mikilvægi samstarfs við flugfélög, samningsstöðu klasans og fjármál vegna samstarfsverkefna. Áhersla verður á ferðaþjónustu yfir vetrartímann og fór Ásbjörn Björgvinsson yfir árangur sem náðist á kynningarfundi um vetrarferðaþjónustu sem nýlega var haldinn í London. Þar lagði hann m.a. áherslu á að koma á samstarfi við breskar ferðaskrifstofur.

Arnheiður  segir að verkefni Air 66N sé sett upp til 5 ára og er miðað við að gerður verði þriggja ára samningur við flugfélag um reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Flugið verði sett upp sem áætlun á ákveðnum tímabilum, frá 5 mánuðum fyrsta árið upp í 11 mánuði á ári. Air 66N mun taka þátt í áhættu flugfélagsins með niðurgreiðslum á farþega- og lendingargjöldum. Einnig verður þátttaka í markaðssetningu nýrrar flugleiðar.

Air 66N er rekið sem sjálfstætt verkefni innan Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi. Verkefnið er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, fyrirtækja í útflutningi, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila. Þróaðir verða þjónustupakkar fyrir markhópa til sölu fyrir innlenda og erlenda ferðaheildsala sem samstarf verður við. Arnheiður segir að lögð verði áhersla á Breta, Dani og Þjóðverja. Stefna í kynningum miðar að því að kynna náttúru, sögu og menningu Norðurlands auk tækifæra í vetrarferðaþjónustu. Unnið verður með ímynd Norðurlands og upplifun ferðamanna um kyrrð, orku og töfra.

„Ávinningurinn er mikill, sýnt hefur verið fram á að gistinóttum fjölgar um rúmlega 5 hjá þeim ferðamönnum sem lenda beint á Akureyrarflugvelli miðað við þá sem ferðast í gegnum Keflavík. Árstekjur af þeim 16.000 erlendu ferðamönnum sem áætlað er að fari um Akureyrarflugvöll 2015 ef áætlanir Air 66N ganga eftir eru áætlaðar um 1.500 milljónir króna og mun verkefnið skapa 95 heilsársstörf,“ segir Arnheiður.

Nýjast