Ársreikningur Norðurþings: Viðsnúningur og jákvæður rekstur

Horft til Húsavíkur. Mynd: Einar Gíslason.
Horft til Húsavíkur. Mynd: Einar Gíslason.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Norðurþings voru ársreikningar sveitarfélagsins til fyrri umræðu og lagði meirihluti sveitarstjórnar fram eftirfarandi bókun:

„Ánægjulegt er að sjá þann viðsnúning á afkomu sveitarfélagsins sem ársreikningur 2016 sýnir. Rekstrarniðurstaða samstæðu Norðurþings er jákvæð um 282 milljónir króna og jákvæð um 100 milljónir króna ef horft er til A-hluta eingöngu. Skuldahlutfall samkvæmt reglum um fjárhagsviðmið sveitarfélaga er komið niður í 136% fyrir samstæðuna og 128% fyrir A-hlutann. Með því er Norðurþing komið vel niður fyrir 150% viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaga, mun fyrr en áætlað hefur verið. 

Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings er stoltur af þeirri niðurstöðu sem fyrir liggur. Þessi viðsnúningur er sérstaklega athyglisverður fyrir það að undanfarið hefur verið mikill uppbyggingartími hjá sveitarfélaginu, m.a. við mannaflsfreka samningagerð, skipulagsvinnu, útfærslu og framkvæmd ýmissa verkefna í tengslum við atvinnulífið á svæðinu. Meirihlutinn vill þakka stjórnsýslu, stjórnendum og öðru starfsfólki Norðurþings sérstaklega fyrir vel unnin verk á álagstímum.“

Ársreikningnum var síðan vísað til síðari umræðu í sveitarstjórn. JS

 

 

Nýjast