Arngrímur Arnarson ráðinn safnstjóri Hvalasafnsins

Arngrímur hefur störf í mars. Mynd/Hvalasafnið á Húsavík.
Arngrímur hefur störf í mars. Mynd/Hvalasafnið á Húsavík.
Hvalasafnið á Húsavík hefur ráðið Arngrím Arnarson til að sinna starfi safnstjóra. Arngrímur, sem flestir þekkja sem Agga, er fæddur og uppalinn á Húsavík og býr þar ásamt fjölskyldu sinni. Hann er kerfisfræðingur að mennt, með framhaldsmenntun í margmiðlunarhönnun frá Danmörku. Aggi hefur víðtæka reynslu af nýsköpun, verkefnastjórnun, rekstri og stjórnun fyrirtækja og hefur lengi starfað í tengslum við ferðaþjónustu. Hann býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á miðlun upplýsinga og skapandi kynningarstarfi og hefur meðal annars hlotið íslensku vefverðlaunin. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hvalasafnsins.
 
Þar segir að síðustu ár hafi Aggi starfað sem markaðs- og sölustjóri hjá Norðursiglingu, þar sem hann hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum tengdum hvalaskoðun, gestaupplifun, fræðslu og skapandi miðlun. Í starfi sínu hefur hann átt náið samstarf við helstu hagaðila á sviði hafrannsókna, ferðaþjónustu og sjálfbærni — þar á meðal Hvalasafnið.
 
Aggi þekkir vel til Hvalasafnsins. Hann hefur í gegnum tíðina unnið að fjölmörgum samvinnuverkefnum með safninu, meðal annars gerð bæklinga og heimasíðu safnsins á upphafsárum þess, auk þess sem hann hefur aðstoðað við uppsetningu á viðburðum og sýningum í húsinu. Sterk persónuleg tenging hans við safnið og hvalamenningu svæðisins endurspeglast í áralangri þátttöku hans í fræðslu, menningarstarfi og hvalaskoðun á Skjálfanda.
 
Það er mér mikill heiður að taka við starfi safnstjóra Hvalasafnsins á Húsavík. Ég hlakka til að vinna með öflugu teymi að áframhaldandi uppbyggingu og þróun safnsins, sem hefur verið frábær síðustu ár undir stjórn Evu.
 
Með ráðningu Agga stefnir Hvalasafnið að því að efla enn frekar fræðslu, rannsóknatengda starfsemi og upplifun gesta, ásamt því að styrkja tengsl safnsins við nærsamfélagið. Aggi mun leggja áherslu á að safnið sé lifandi vettvangur sem sameinar fróðleik, upplifun og samstarf — og gegni sífellt mikilvægara hlutverki í samhengi sjálfbærrar ferðaþjónustu og þekkingar á hvölum og umhverfi þeirra, hafinu.
 
Aggi mun hefja störf í mars.

Nýjast