Andrúmsloftið elskulegt og ljúft á Akureyri um helgina

Undirbúningur fyrir fjölskylduhátiðina "Ein með öllu og allt undir," er á lokastigi enda verslunarmannahelgin framundan. Margrét Blöndal verkefnastjóri hátíðarinnar segir að undirbúningurinn hafi gengið vel og hún vonast eftir góðri þátttöku Akureyringa og gesta í hátíðahöldunum næstu daga.  

"Við vinnum eftir sömu hugmyndafræði og í fyrra, þetta á að vera hátíð sem við sem hér búum getum öll verið stolt af. Einnig langar okkur að laða hingað brottflutta Akureyringa og alla þá sem vilja þetta yfirbragð sem við bjóðum upp á. Við höfum gert það sem við getum til að andrúmsloftið verði bæði elskulegt og ljúft. Einnig höfum verið að bæta utan á ýmsa dagskrárliði frá því í fyrra."

Margrét nefnir í því sambandi óskalagatónleika Eyþórs Inga Jónssonar í Akureyrarkirkju. Nú verður söngvarinn Óskar Pétursson með Eyþóri og getur fólk valið sér óskalög á staðnum. "Einnig verðum við með Dynheimaball fyrir gamla unglinga og börnin þeirra og svo verður framhaldsball á Oddvitanum, fyrir gömlu unglingana annað kvöld, þar sem aldurstakmarkið er 30 ár."

Á laugardaginn verður ABBA þema með heilmikilli dagskrá en Margrét segir að hún byggist á því að fólk taki þátt. "Þú þarft að vera þátttakandi en ekki áhorfandi. Mig dreymir um að sjá sem flesta í einhvers konar búningum en þeir sem ekki leggja í það, hafa samt óneitanlega gaman af því að fylgjast með hinum og allir geta dansað og sungið. Þetta byrjar á Ráðhústorgi en þaðan verður skrúðganga að Torfunefsbryggju, þar sem verður dansatriði. Þau Sigyn Blöndal og Gunnar Sigurbjörnsson hljóðmaður sjá um þetta ABBA ævintýri með mér og draumur minn er að þar verði hægt að endurtaka atriðið úr Mama Mia bíómyndinni. Ég get samt ekki lofað því að ég hoppi í sjóinn eins og gert var í myndinni en ef það verður 18 stiga hiti og sól, skal ég hoppa í sjóinn."

Margrét segir að á sunnudeginum verður markaður á Ráðhústorgi, þar sem verður markaðsstemmning, Matur úr héraði og skemmtikraftar inn á milli. "Það er einmitt þessi ljúfa og notalega stemmning sem klæðir bæinn svo vel. Svo verða sparitónleikar á Akureyrarvellinum á sunnudagskvöld með  skemmtilegri dagskrá. Hugmyndin með þessum sparitónleikum er einmitt að fá fólk til að fara með góða tilfinningu inn í haustið og veturinn og muni að það er hægt að gera fallega og góða hluti þótt maður eigi ekki milljónir," sagði Margrét.

Það eru Vinir Akureyrar í samvinnu við Akureyrarstofu sem standa að hátíðinni. Í boði er fjölbreytt dagskrá, sem ætti að höfða til fólks á aldrinum 2ja til 102ja ára.

Nýjast