Allir fremstu skíðamenn landsins bæði í alpagreinum og skíðagöngu eru mættir til leiks. Einnig koma til keppni 10 erlendir keppendur, fimm landsliðsmenn frá Slóveníu, tveir Hollendingar, tveir Svíar og einn Svisslendingur sem keppir nú fyrir hönd Makedóníu. Sá heitir Urs Imboden og er númer 20 og 24 á heimslista yfir bestu skíðamenn í svigi og stórsvigi í dag og er án nokkurs vafa fremstur hinna erlendu keppenda. Að sögn Margétar Baldvinsdóttur, sem situr í mótanefnd Landsmótsins, er áætlað að um 150 keppendur mæti til keppni og liggur því mikil vinna að baki móti sem þessu. Auk Margrétar sitja fimm manns í mótanefnd sem hefur lengi unnið að undirbúningi og skipulagninu mótsins. Um 100 manns munu svo vinna við mótið á meðan keppni stendur yfir.
Mótið í ár er sérstaklega merkilegt fyrir þær sakir að um er að ræða afmælismót því um þessar mundir eru 70 ár síðan skíðafélag var stofnað á Akureyri og var það félag undanfari Skíðafélags Akureyrar. Í tilefni afmælisins hefur verið sett upp sögusýning á Glerártorgi þar sem meðal annars er myndasýning frá árunum 1920-1980 sem Minjasafnið tók saman.