„Mér finnst þetta mjög gott og sýna það að fólk ber traust til okkar þó eitthvað á móti blási af og til,” segir Ólafur Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, um niðurstöður könnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir ríkislögreglustjóra og náði yfir allt landið. Könnunin var gerð í apríl sl. og var birt fjölmiðlum í gær.
Þar kemur m.a. fram að um 33 prósent eru mjög ánægð með lögregluna á Norðurlandi og hennar störf en um 63 prósent töldu lögreglu skila nokkuð góðu starfi. Samtals voru 84 prósent mjög eða nokkuð ánægð með aðgengi að lögreglunni á Norðurlandi.
„Það er hvergi betra að vera lögregla en á Akureyri. Flestir bæjarbúar bera mikið traust til okkar og líta á okkur sem vini sína.” Ólafur segir niðurstöður könnunarinnar ekki hafa komið sér mikið á óvart nema fyrir þær sakir hversu neikvæð umræða hefur verið í garð lögreglunnar undanfarna mánuði. „Það hefur verið talað mikið niður til lögreglunnar og það er heldur neikvæð umræða og árangurinn er því mjög góður í ljósi þess. Fólkið í bænum er mjög hlynnt löggæslu og þeir vilja hafa sínar löggur og getað leitað til okkar. Ég hef alltaf fundið það að fólk ber traust til okkar en ég hélt samt að við myndum ekki skora svona hátt núna, þannig að það kemur mest á óvart og það er auðvitað mikill sigur fyrir okkur,” segir Ólafur Ásgeirsson.