„Ánægður með að vera hluti af þessum hópi“

Arnór Þór Gunnarsson í leik með TV Bittenfeld.
Arnór Þór Gunnarsson í leik með TV Bittenfeld.

Akureyringurinn Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður TV Bittenfeld í Þýskalandi, stendur í ströngu þessa dagana með landsliðinu sem undirbýr sig af kappi fyrir lokakeppni Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Serbíu síðar í mánuðinum. Arnór, sem er 24 ára, hefur verið viðriðinn hópinn undanfarin misseri og verið með liðinu á æfingamótum. Hann hefur hins vegar aldrei spilað með liðinu á stórmóti. Arnór er ekki í 18 manna hópnum sem fer á æfingamót til Danmerkur í dag og við það minnkuðu möguleikar hans töluvert, en eru þó ekki alveg úr sögunni. Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari mun tilkynna 16 manna lokahóp skömmu fyrir mót. Arnór var á leiðinni á morgunæfingu með landsliðinu í vikunni þegar Vikudagur heyrði í honum hljóðið.

„Það er fín stemmning í hópnum og menn eru að komast í gírinn. Það væri auðvitað frábært að komast á stórmót og það þýðir ekkert annað en að hafa trú á þeim hlutum sem maður er að gera hverju sinni,“ sagði hann. Arnór leikur með TV Bittenfeld í 2. deildinni í Þýskalandi og er á sínu öðru ári með liðinu. Hann lék með Val hér heima áður en hann hélt út og segist hafa verið fljótur að aðlagast þýska handboltanum.

„Það tók nokkra leiki að komast inn í hraðann sem liðið er að spila. Þetta er aðeins öðruvísi hérna en Þýskaland er algjörlega staðurinn þar sem ég vil spila og mér líkar svakalega vel þarna úti," segir Arnór.

Nánar er rætt við Arnór um landsliðið og dvölina í Þýskalandi í Vikudegi sem kom út í dag.

Nýjast