Akureyrarbær hefur lokið álagningu fasteignagjalda fyrir árið 20012. Heildarálögð gjöld á bæjarbúa á árinu nema rúmum 2,2 milljörðum króna, á móti rúmlega 2,1 milljörðum á árinu 2011 og nemur hækkunin 7,23%. Afsláttur til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega hefur þó aukist á milli ára, eða úr tæpum 12 milljónum króna í 21 milljón króna. Að sögn Dans Brynjarssonar fjáramálastjóra Akureyrarbæjar hefur sú breyting verið gerð nú að álagningarseðlar, þar sem álagningin kemur fram, er nú birt á vefnum island.is. Þar geta bæjarbúar skráð sig inn eftir sérstökum leiðbeiningum, líkt og þeir gera t.d. varðandi skattframtalið. Álagningarseðlar eru því ekki sendir út á pappír líkt og áður og segir Dan að það þýði sparnað fyrir samfélagið. Við munum þó áfram senda út álagningarseðla til íbúa 67 ára og eldri og einnig til fyrirtækja og stofnana.
Dan segir að fasteignamat bæjarbúa hafi verið birt sl. sumar, sem tók gildi nú um áramótin og er það líka að finna á vefnum island.is eins og reyndar margt annað. Dan segir að álagningarprósenta fasteignarskatts, lóðarleigu og fráveitugjalds sé óbreytt á milli ára. Hins vegar hafi mat á fasteignum hækkað, sem þýði auknar tekjur fyrir bæjarsjóð, auk þess sem íbúðum hafi fjölgað í bænum. Vatnsskattur hækkaði miðað við neysluverðsvísitölu, eða um rúm 5% og sorphirðugjald hækkaði úr 22.000 krónum á íbúð í 23.100 krónur, eða um 5%. Líkt og undanfarin ár eru gjalddagar fasteignagjalda alls átta á árinu, frá febrúar til september.