Allt sorp verði flokkað og komið til urðunar eða endurvinnslu

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum í vikunni, að óska eftir viðræðum við Flokkun ehf. um rekstur gámasvæðis í sveitarfélaginu. Þetta er gert í framhaldi af fundi með Hermanni Jóni Tómassyni og Eiði Guðmundssyni fulltrúum Flokkunar ehf. og Moltu ehf., um fyrirkomulag sorphirðu og sorpförgunar á Eyjafjarðarsvæðinu.  

Jafnframt óskar sveitarstjórn eftir því við fyrirtækin að þau beiti sér sem fyrst fyrir því að allt sorp sem til fellur á svæðinu verði flokkað og því komið til urðunar eða endurvinnslu á þann hátt sem hagstæðast er fyrir sveitarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu svo og fyrir Flokkun ehf og Moltu ehf. Með því verði kostnaði sveitarfélaganna haldið í lágmarki og rekstur þessara fyrirtækja gerður eins hagkvæmur og mögulegt er. Einnig verði markmiðið að sveitafélög á Eyjafjarðarsvæðinu sem staðið hafa að uppbyggingu stærstu jarðgerðarstöðvar á landinu verði í fararbroddi sveitarfélaga hvað varðar flokkun, endurvinnslu og urðun sorps.

Nýjast