Sérfræðingur í bráðalækningum á SAk er meðal þátttakanda í einni stærstu rannsókn á hjartastoppi utan sjúkrahúsa í Evrópu
Bergþór Steinn Jónsson, sérfræðingur í bráðalækningum á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk), var meðal þátttakenda í nýrri evrópskri rannsókn á hjartastoppum utan sjúkrahúsa – (e. European Registry of Cardiac Arrest Study THREE (EuReCa-THREE) – sem birtist nýverið í tímaritinu Resuscitation. Greint er frá þessu á heimasíðu SAk.
Rannsóknin er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu hingað til og náði til gagna frá 28 löndum og yfir 230 milljón íbúa. Alls voru yfir 45.000 hjartastoppstilfelli greind, þar af um 32.000 þar sem sjúkraflutningamenn hófu eða héldu áfram endurlífgun.
Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig viðbragðstími sjúkraflutninga (EMS) hefur áhrif á lífslíkur einstaklinga sem lenda í hjartastoppi utan sjúkrahúsa. Niðurstöður sýna skýrt að styttri viðbragðstími eykur líkurnar á að sjúklingur nái sér – og að viðbragðstími yfir 15 mínútur helmingar líkur á að lifa af hjartastopp.
„Þetta undirstrikar mikilvægi þess að bæta aðgengi og útkallshraða sjúkraflutninga, sérstaklega í dreifðum byggðum,“ segir Bergþór Steinn.
Bergþór tók þátt í rannsókninni sem fulltrúi Íslands og kemur fram í höfundahópi greinarinnar ásamt læknum og sérfræðingum víðs vegar úr Evrópu. Hann segir þátttöku SAk og Íslands í slíkum verkefnum skipta miklu máli: „Það skiptir máli að Ísland taki þátt í þessu samstarfi þar sem eitt markmiðið er að samræma skráningu til að auðvelda samanburð á milli landa. Þannig getum við fengið fram raunhæfa mynd af okkar stöðu og árangri. Slíkar rannsóknir nýtast okkur beint í umbótastarfi og stefnumótun í bráðalækningum og sjúkraflutningum.“
Í niðurstöðunum kemur einnig fram að lífslíkur aukast verulega ef hjartastoppið verður á almannafæri, ef það er vitni að atvikinu og ef einhver á vettvangi veitir endurlífgun áður en sjúkraflutningar koma: „Það er gríðarlega mikilvægt að allir kunni fyrstu hjálp og geti brugðist hratt við.“ segir Bergþór.