Alls eru 65 skemmtiferðaskip væntanleg í sumar

Áætlað er að farþegum með skemmtiferðaskipum fjölgi um 35% á milli ára.
Áætlað er að farþegum með skemmtiferðaskipum fjölgi um 35% á milli ára.

Það styttist í sumarið og það styttist jafnframt í komu fyrsta skemmtiferðaskipsins til Akureyrar á þessu ári. Fyrsta skipið, Ventura, er væntanlegt þann 9. júní nk. en þetta er jafnframt eitt af stærstu skipunum sem hingað koma í sumar. Ventura er um 116.000 brúttótonn að stærð og áætlað er að um borð verði um 2.500 farþegar. Stærsta skipið sem kemur til Akureyrar í sumar er 122.000 brúttótonn og heitir Celebrity Eclipse en það kemur tvisvar, í fyrra skiptið þann 12. júlí. Alls verða komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar 65 talsins en síðasta skipið er væntanlegt 17. september. Sífellt stærri skemmtiferðaskip leggja leið sína til Akureyrar og er áætlað að farþegum muni fjölga um 35% í sumar, miðað við sumarið í fyrra. Þá komu tæplega 50.000 farþegar með skemmtiferðaskipum en í ár er gert ráð fyrir því að farþegafjöldinn verði í kringum 67-68 þúsund talsins, að sögn Péturs Ólafssonar skrifstofustjóra Hafnasamlags Norðurlands.

Pétur segir að útlitið fyrir sumarið 2013 sé einnig gott og hann á von á svipuðum fjölda skipa þá og í sumar. Þessa dagana er verið að vinna við lagfæringar á grjótgarðinum við Oddeyrarbryggju og styrkja undirstöður en flest skemmtiferðaskipin leggjast þar að bryggju.

Nýjast