Tillaga sem borin var upp á almennum félagsfundi hjá svæðisfélagi VG á Akureyri um að stilla upp framboðslista hreyfingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor var einróma samþykkt.
Vinstrihreyfingin grænt framboð er með einn bæjarfulltrúa á Akureyri og í umræðum á fundinum kom glöggt í ljós mikilvægi þess að sjónarmið umhverfisverndar, félagslegs réttlætis og kvenfrelsis muni áfram heyrast í bæjarstjórn Akureyrarbæjar.
Rödd VG mikilvæg
„Fram undan eru margvísleg verkefni sem varða framtíðaruppbyggingu Eyjafjarðarsvæðisins og brýnt er að missa ekki sjónar af umhverfisvernd, málefnum barnafólks og aldraðra og öðrum félagslegum þáttum í samfélaginu. Rödd VG er því afar mikilvæg nú sem endranær,“ segir í tilkynningu frá VG á Akureyri.
Þau sem hafa áhuga á að gefa kost á sér á framboðslista VG á Akureyri eru hvött til að láta uppstillingarnefnd vita af sér á netfangið vinstriak@gmail.com. Nefndin tekur einnig við ábendingum.