Akureyri stígur skref í þágu friðar

"Akureyri býður boðbera friðarboðskaparins velkomna," sagði Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar þegar hann tók á móti Friðarhlaupinu í morgun. Eiríkur lét ekki þar við sitja, heldur fór fyrir bæjarbúum og hljóp með Friðarhlaupinu upp Gilið alla leið að KA-svæðinu.  

Krakkar af leikjanámskeiðum KA tóku þar við Friðarkyndlinum, en Friðarhlaupið er aðili að alþjóðlegu ári ungmenna sem Sameinuðu Þjóðirnar og UNESCO standa að og verður þannig "börnum og ungmennum farvegur fyrir drauma þeirra um betri veröld," eins og segir í yfirlýsingu Dr. Davidson Hepburn, forseta allsherjarþings UNESCO. Eiríkur bæjarstjóri og Hrefna Gunnhildur Torfadóttir, formaður KA, fengu samfélagsverðlaunin "Kyndilberi friðar" og skipuðu sér þar með á bekk með Carl Lewis, Vigdísi Finnbogadóttur og tennisstjörnunni Billie Jean King, en verðlaunin eru afhent einstaklingum sem hafa unnið þrotlaust óeigingjarnt starf í þágu betra samfélags.

Íbúar á sambýli aldraðra í Bakkahlíð tóku á móti viðurkenningu frá Friðarhlaupinu fyrir hönd sinnar kynslóðar og genginna kynslóða fyrir að hafa "byggt upp menningu friðar og frelsis á Íslandi sem getur orðið öðrum þjóðum fyrirmynd," sagði Dipavajan Renner, skipuleggjandi Friðarhlaupsins í Evrópu. Áður en Friðarhlaupararnir héldu til Dalvíkur heimsóttu þeir krakka af leikjanámskeiðum og æfingum Þórs og hlupu með þeim á hinni glæsilegu hlaupabraut á Þórssvæðinu.

Friðarhlaupið - World Harmony Run er alþjóðlegt kyndilboðhlaup. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning. Friðarfrömuðurinn Sri Chinmoy stofnaði Friðarhlaupið árið 1987 og hefur nú verið hlaupið í rúmlega 100 löndum síðustu 24 árin.Í ár verður hlaupið hringinn í kringum Ísland, 5.-22. júlí, en þá munu 20 hlauparar frá 13 þjóðlöndum hlaupa með Friðarkyndilinn.

Heimasíða hlaupsins er: http://vikudagur.is/www.worldharmonyrun.org

Nýjast