Akureyri í úrslit í 2. flokki í handbolta

Annar flokkur Akureyrar Handboltafélags tryggði sér í kvöld farseðilinn í úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta eftir ótrúlegan sigur á Víkingi í framlengdum leik í íþróttahúsi Síðuskóla. Leikurinn var lengst af jafn en Akureyri hafði yfir 14-11 í hálfleik. Víkingar komu geysilega grimmir til seinni hálfleiks og náðu forystu 17-15. Lið Akureyrar komst svo smám saman betur í takt við leikinn og hafði örugga forystu 29-26 þegar um fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Þá var eins og kæruleysi gripi um sig hjá heimamönnum og skyndilega voru Víkingar komnir marki yfir þegar um 14 sekúndur lifðu leiks og staðan 30-29. Geir Kristinn Aðalsteinsson, þjálfari Akureyrar tók þá leikhlé og róaði sína menn, það borgaði sig því Oddur Gretarsson náði að jafna leikinn tveimur sekúndum áður en lokaflautan gall.

Framlengja þurfti leikinn en þá var strax ljóst að heimamenn ætluðu sér sigur og ekkert annað. Elmar Kristjánsson markvörður Akureyrar lokaði hreinlega markinu og í sókninni spilaði allt liðið vel. Svo fór að lokum að Akureyri vann 38-34 eftir að hafa komist mest fimm mörkum yfir. Heilt yfir var Oddur Gretarsson að spila best útleikmanna Akureyrar en einnig áttu þeir Anton Rúnarsson, Atli Ingólfsson og Bjarni Jónasson góða spretti. Elmar stóð í markinu mest allan tímann og varði mjög vel.

„Ég hafði alltaf trú á því að við myndum sigra þó að vissulega hafi komið smá stress í mann þegar við vorum marki undir nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Það kom bara ekki til greina að fara ekki í úrslit því við ætlum að vinna þennan titil eftir að hafa tapað þremur úrslitaleikjum á tveimur árum,“ sagði kampakátur Oddur Gretarsson eftir leik.

Nýjast