Ekki blés byrlega um Norðanmenn í byrjun leiks því liðið lenti 0-5 undir eftir einungis fjórar mínútur. Smám saman vöknuðu strákarnir þó til lífsins og tóku til við að minnka forskot Hafnfirðinga, undir lok fyrri hálfleiks var munurinn kominn niður í tvö mörk 15-13 heimamönnum í vil. FH skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins gegn einu frá Akureyri og munaði því þremur mörkum í hálfleik í stöðunni 17-14.
Akureyri byrjaði síðari hálfleikinn ágætlega og eftir um 6 mínútna leik var forysta FH einungis eitt mark. Þá kom hins vegar aftur góður kafli hjá Hafnfirðingum og höfðu þeir 3-4 marka forystu þar til um 12 mínútur voru til leiksloka. Þá skoruðu Akureyringar þrjú mörk í röð og jöfnuðu 27-27, jafnt í fyrsta skipti síðan í stöðunni 0-0. Akureyringar skoruðu raunar fjögur mörk í röð því þeir komust í 28-27 en þá jafnaði FH í 28-28.
Eftir fylgdu æsispennandi lokamínútur þar sem liðin skiptust á að skora allt þar til í stöðunni 31-31 og þrjár mínútur eftir. Akureyri skoraði þá þrjú mörk í röð, hið síðasta þegar 20 sek voru til loka leiksins og sigurinn því í höfn. FH-skoraði síðasta markið en það voru Akureyringar sem stigu trilltan sigurdans að leik loknum enda liðið eins og áður hefur komið fram í efsta sæti deildarinnar eftir þennan góða sigur.
Varnarleikur og markvarsla Akureyrar hefur oft verið betri en í þessum leik en sóknarleikurinn var aftur á móti með besta móti og var það hann sem skóp sigur liðsins í kvöld.
Árni Þór Sigtryggsson skoraði ellefu mörk, þar af þrjú úr vítum. Hörður Fannar Sigþórsson og Andri Snær Stefánsson skoruðu fimm mörk hvor. Aðrir minna.