Akureyri í bikarúrslit í 2. flokki í handbolta

Strákarnir í 2. flokki í handboltaliði Akureyrar voru nú rétt í þessu að tryggja sér sæti í bikarúrslitum 2. flokks með öruggum sigri á Selfossi í Íþróttahúsi Síðuskóla. ,,Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur og er eitthvað sem við höfum stefnt að alveg síðan í sumar. Nú ætlum við að hefna ófaranna gegn HK sem við töpuðum fyrir í fyrra í úrslitum og það er óhætt að segja að þar verði barist til síðasta manns að þessu sinni," sagði kátur þjálfari Akureyrar, Geir Kristinn Aðalsteinsson eftir leik.

Fyrri hálfleikur var jafn lengst um og staðan 15-14 Selfyssingum í vil í hálfleik. Akureyrarstrákarnir voru að spila undir getu í fyrri hálfleiknum, ragir í sókninni og óákveðnir í vörninni.

Í seinni hálfleik var allt annað uppi á teningnum, þeir strákar sem átt hafa fast sæti í meistaraflokki félagsins stigu upp og tóku leikinn hreinlega í sýnar hendur fyrir heimamenn. Skyttan Anton Rúnarsson og hornamennirnir Heiðar Aðalsteinsson og Oddur Gretarsson áttu hreinlega stórleik, þó sérstaklega þeir tveir fyrstnefndu sem voru hreinlega óstöðvandi í seinni hálfleik.

Ekki skyldi gleyma frábærri innkomu Siguróla Magna Sigurðssonar í mark Akureyrarliðsins þegar stutt var liðið af seinni hálfleik, en hann varði eflaust um 60 % þeirra skota sem á hann komu.

Heimamenn hreinlega völtuðu yfir gestina í seinni hálfleiknum og höfðu þegar best lét átta marka forystu en leikurinn endaði með sjö marka sigri Akureyrar 37-30.

,,Fyrri og seinni hálfleikur voru eins og svart og hvítt hjá okkur, fyrri hálfleikurinn frekar slakur en sá seinni var sennilega besti hálfleikurinn okkar í vetur og það gekk allt upp," sagði Geir Kristinn. Aðspurður um framtíð þessara stráka sagði hann: ,,við erum með stórefnilegt lið í höndunum hér og ég sé flesta þessara stráka taka við í meistaraflokk eftir nokkur ár. Við eigum líka frábæran 3. flokk í báðum félögum og efnilega stráka í 4. flokki líka. Sé einhverstaðar björt framtíð á Íslandi í handbolta þá er hún svo sannarlega hér á Akureyri."

Mörk Akureyrar: Anton Rúnarsson 11, Heiðar Þór Aðalsteinsson 9, Oddur Gretarsson 6, Hlynur Matthíasson 4, Bjarni Jónasson 3, Ágúst Stefánsson 1, Halldór Logi Árnason 1, Jón Þór Sigurðsson 1, Atli Ingólfsson 1.

Akureyri mætir HK í úrslitaleik 1. mars nk. 

Nýjast