Það fór ekki framhjá neinum að desember var óvenjulega hlýr og var hiti langt yfir meðallagi. Á landsvísu var þetta þriðji hlýjasti desembermánuður frá upphafi mælinga. Jólin voru sérstaklega hlý þegar sunnanhvassviðri gekk yfir landið.
Meðalhiti í byggðum landsins var 3,0 stig sem er þremur stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á landsvísu var þetta þriðji hlýjasti desembermánuður frá upphafi mælinga. Það var hlýrra í desember 1933 og 2002.
Á Akureyri var meðalhitinn í desember 2,4 stig, sem var 3,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 3,9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti í Reykjavík í desember var 4,0 stig. Það er 3,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 3,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára.